Ég kýs þig ekki ef

  • Þú getur ekki tekið þátt í rökræðum án þess að kalla  fólk sem er ósammála þér ljótum og meiðandi nöfnum.
  • Þú ert 100% sannfærð(ur) um að það sem þú segir séu staðreyndir en það sem sem hinir segja sé bull.
  • Þú ert ekki fær um að lesa greinar eða statusa sem eru andstæð þínum skoðunum án þess að drulla yfir þær/þá af fullkomnu skilningsleysi á því sem stendur í þeim. Ef yfirdrullið fer síðan að snúast um persónuna sem skrifar þá áttu verulega bágt.
  • Þú heldur að ríkjandi viðhorf séu óumbreytanlegir fastar, sérstaklega í þeim málum sem þú hefur sterka skoðun á. Og að sjálfsögðu fylgir að þú lest bara efni sem passar við þinar skoðanir í þessum málum, hitt er auðvitað allt saman bull og kjaftæði.

Ef þú getur ekki sett þig í spor annarra þá áttu ekkert erindi í stjórnmál. Ef þú áttar þig ekki á því í hversu fjölbreyttur, síbreytilegur og óútreiknanlegur heimurinn okkar er þá áttu ekkert erindi í stjórnmál, allavega ekki með mínu umboði.

1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
1.2 Í þessu felst að Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki.

Þessi aðferðafræði trompar þínar skoðanir og ‘staðreyndir’, alltaf! Líka mínar!

Reyndar nenni ég ekki einu sinni að tala við þig ef þú lætur eins og fáviti, talar eins og fáviti og stimplar alla sem eru þér ósammála sem fávita. Samfélag fólks byggir á samvinnu og samstarfi og því að tekið sé tillit til mismunandi viðhorfs fólks til lífsins. Ekki því að stimpla aðra sem fávita.

Ef þú kýst að túlka þessi skrif sem einhverskonar hótun þá nenni ég eiginlega ekki að tala við þig heldur, lífið er of stutt til að eyða því í bull. Þetta er einfaldlega mín skoðun á því hvernig við megum ekki haga okkur ef við ætlum að búa til samfélag sem virkar. Ef þú sérð hótanir hér þá er eitthvað að þínum lesskilningi, það er ekki hótun að lýsa yfir minni skoðun á því hvernig ég ætla að velja þá frambjóðendur sem ég kýs.

Og þetta er líka mín yfirlýsing um að þrátt fyrir og vegna þess að ég hef töluverðan tolerans fyrir mismunandi skoðunum fólks þá hef ég mjög lítinn tolerans fyrir fólki sem ber enga virðingu fyrir skoðunum annara.

Hlutleysi í prófkjöri – Yfirlýsing

Yfirlýsing til vina minna sem eru í framboði í prófkjörum Pírata, pírata almennt og allra annara sem láta sig þetta skipta:

Þar til eftir að komandi prófkjörum lýkur mun ég hvorki lýsa yfir stuðningi við né deila greinum eða öðrum vefsíðum á samfélagsmiðlum sem tengjast einhverjum frambjóðendum. Ég hinsvegar Likea allt sem ég sé sem viðkemur framboði einhverra í prófkjöri, bæði af því að ég styð fjölbreytnina og líka af því að það eykur sýnileika prófkjörsins á Facebook, hvert Like telur.

Ástæðan fyrir sjálfskipuðu deilingarbanni er sú að ég er í framkvæmdaráði Pírata og ég vil gæta fyllsta hlutleysis á meðan á prófkjöri stendur. Að loknum prófkjörum mun ég hinsvegar deila eins og vindurinn öllu sem ég fíla eða finnst skipta máli!

Sett hér inn til að ég þurfi ekki annaðhvort að útskýra fyrir öllum eða að missa vini ;)

 

Gamla Ísland tekur kónginn

Á morgun munu Íslendingar kjósa sér nýjan forseta og ég held  að margir muni sjá eftir atkvæði sínu í nýja forsetann þegar fram líða stundir. En það er svosem skiljanlegt eftir 20 ára ofbeldissamband með ÓRG að marga þyrsti í forseta hlutleysis. Vandamálið er að  hlutleysi er ekki til, það er mjög sterk afstaða með óbreyttu ástandi, status quo.

Þið hin eruð semsagt að fara að kjósa forseta sem mun gera sitt besta til að viðhalda Gamla Íslandi þó að honum finnist hugsanlega mögulega kannski þurfa að laga eitthvað smá stjórnarskránna. Hann mun skrifa undir allt sem forsætisráðherra réttir að honum, amk. á meðan sá forsætisráðherra er líka í Gamla Ísland klúbbnum. Eina óvissan er hvað hann mun gera við róttæk lög frá forsætisráðherra Pírata, það er gott að einhver spenna sé. En líklega mun hann líka skrifa undir þau, allavega á meðan þau eru ekki of róttæk. Sjáum til.

Guðni á alveg séns í að verða þokkalegt Kristjáns Eldjárns klón með smá dassi af Viggu og vissulega er það jákvætt að líkurnar á því að hann verði ÓRG2 eru litlar, það er nóg komið af því svínaríi. Og auðvitað verð ég manna glaðastur ef ég hef rangt fyrir mér og Guðni verður fyrirmyndarforseti sem stendur með þjóðinni gegn auðskrílnum. En ég held að það sé svona álíka líklegt og að DOh verði forseti.

P.S: Þessi pistill er ekki skrifaður í þeirri von að fá neinn til að skipta um skoðun, nei, hann er skrifaður til að þess að ég geti síðar sagt ‘I told you so’. Sorrí gæs, ég skammast mín alveg smá fyrir að vera mannlegur en hey, ég er þó allavega einlægur með það :>

 

Upplýst val í prófkjörum Pírata í boði framkvæmdaráðs

Það eru áhugaverðir tímar í stjórnmálum og það er okkar að nýta þetta tækifæri til að gera gagn, hreinsa út skítinn og byggja upp betra Ísland. Ég vona og tel að allir Píratar séu sammála um þetta.

Fyrsta formlega skrefið er framundan, velja fólk á lista Pírata til þingkosninga. Prófkjörin sjálf eru ekki flókin en að velja þann frambjóðenda sem endurspeglar sem mest þín viðhorf verður heldur erfiðara. Ástæðan er að við erum svo ný og nýorðin svo mörg að líklegt er að frambjóðendur verði mun fleiri en þeir sem komast að. Og það er frábært!

En upplýstar ákvarðanir eru eitt af grunnstefum Pírata og slíkar verða augljóslega ekki teknar án upplýsinga. Og það er til einföld leið til að tryggja að almennir Píratar geti borið sig saman við frambjóðendur. Continue reading “Upplýst val í prófkjörum Pírata í boði framkvæmdaráðs”

Ég er pírati

Ég heiti Gunnar Grímsson og býð mig fram til framkvæmdaráðs Pírata.

Helstu stefnumál eru:

  • Ég vil greina, auka og bæta innra starf Pírata, bæði rafrænt og hefðbundið. M.a. með því að laga og skýra infrastrúktúr og setja upp ferla sem tryggja gagnsæi og hvetja til heiðarleika.
  • Ég vil auðvelda Pírötum að bera sig saman við frambjóðendur í prófkjörum.  Val á frambjóðendum þarf að byggja á upplýsingum en ekki andlitum.
  • Ég vil auka gagnsæi og aðkomu félagsmanna að störfum framkvæmdaráðs, ekki af því að þau hafi verið illa unnin eða leynileg heldur af því að það er eina góða leiðin til að hafa sem allra mesta sátt um vinnu framkvæmdaráðs.
  • Ég vil virkja fleiri almenna félagsmenn í þágu Pírata, hjálpa góðri grasrót til að nýtast betur því það leynist gríðarlega mikill vannýttur mannauður í fólki sem vill hjálpa en veit ekki hvernig og finnur ekki leiðina sjálft.
  • Ég vil nýta 20+ ára reynslu mína sem vefsmiður og viðmótshönnuður til að bæta framsetningu og aðgengi að gögnum á vefsvæði Pírata, gögn sem ekki er hægt að finna eru lítils virði.
  • Ég vil leita allra leiða til að auka kosningaþátttöku ungs fólks. Bæði af prinsippástæðum og praktískum.

Continue reading “Ég er pírati”

Skiptir máli hvaðan gott kemur?

Innan Pírata og víðar er oft sagt að það skipti ekki máli hvaðan hugmyndir koma, þær eigi alltaf að skoða á eigin forsendum. Og það er alveg rétt, það væri bæði sorglegt og slæmt að henda út góðum hugmyndum bara af því að þær komi frá einhverjum sem þú fílar ekki. En það er líka önnur hlið á þessu sem því miður gleymist oft.

Tökum dæmi: Einhver einstaklingur eða hópur hefur ítrekað blekkt þig, logið að þér og stolið frá þér. Hann kemur með hugmynd sem hljómar vel, þú hleypur til og styður hugmyndina, færð aðra með þér í lið, setur peninga, vinnu og orku í málið. En svo kemur í ljós að í raun var hugmyndin Trójuhestur því hún var eingöngu rammi utan um svik, lygar og þjófnað frá þér og öðrum.

Þú hefur verið misnotaður sem nytsamur sakleysingi og ekki bara hefur þú verið blekktur heldur tókst þú líka þátt í að blekkja aðra, óafvitandi. En þú áttir að vita betur ef þetta er ekki í fyrsta skipti sem viðkomandi gerir þetta við þig. Sökin er vissulega hans en þú ert á ákveðinn hátt meðsekur fyrir blindni/heimsku/ofbjartsýni sakir. Sérstaklega ef þetta hefur gerst aftur og aftur og þú fellur alltaf í gryfjuna.

Þannig að já, verum opin fyrir öllum hugmyndum en gleymum því aldrei að í þessu þjóðfélaginu er því miður fólk í ráðandi stöðum, með gott aðgengi að fjölmiðlum sem það notar einmitt til að koma fram með góðar hugmyndir sem síðan reynast ekki svo góðar.

Fólk og hópar sem hafa ítrekað blekkt og logið eiga ekki annað skilið en hugmyndir þeirra fái mjög djúpa og góða greiningu þar sem allar mögulegar afleiðingar og hliðar eru skoðaðar með sérstaka áherslu á worst case scenario.

Það erfiðasta í þessu er líklega að langflest okkar eigum mjög erfitt með að setja okkur í spor siðblindra einstaklinga sem svífast einskis af því að við erum ekki þannig sjálf og eigum því mjög bágt með að trúa þannig hegðun upp á aðra.

Verum jákvæð og opin fyrir góðum hugmyndum en verum ekki heimsk og blind. Nytsamir sakleysingjar eru og hafa alltaf verið helsti efniviður siðblindingja til sinna skítverka.

 

P.S: Í þessu samhengi mæli ég með lestri á Animal Farm eftir George Orwell. Ef þú hefur lesið hana áður þá er upplagt að gera það aftur, aldrei of oft lesin.

P.P.S: Önnur hlið á þessu máli er síðan að með því að styðja fólk vegna hugmynda sem okkur líkar þá erum við stundum, beint eða óbeint að styðja aðrar hugmyndir þess líka. Þetta er flóknara atriði en ég vildi samt nefna það hér líka.

P.P.P.S: Ef þú kannast við ofanskráð dæmi á eigin skinni, t.d. í mynd ákveðinna lýðskrumandi stjórnmálaflokka þá er það ekkert skrítið…

Gamlar syndir, 2 vefsmíðahandbækur síðan 2007

Þegar ég kenndi viðmótshönnun og vefsmíðar fyrir ansi löngu síðan (’95 til ’07, mest hjá Endurmenntun og Margmiðlunarskólanum en á fjölmörgum öðrum stöðum) þá byrjaði ég á að smíða nokkrar síður af einföldum leiðbeiningum sem urðu að bók sem með tímanum skipti sér í þrjár. Yfirtitill þeirra var “Vefsmíðar” og hafði hver sinn undirtitil:

Continue reading “Gamlar syndir, 2 vefsmíðahandbækur síðan 2007”

Ólýðræðisleg Pótemkin tjöld hefðarinnar

Vísir – Ólýðræðislegur popúlismi meirihlutans.

Hefðir geta ekki og mega ekki trompa lýðræðislega ferla og enn síður gera lítið úr lýðræðinu. Þarna er “atkvæðagreiðslan” í raun Potemkin tjöld fyrir ákvarðanir flokkana, þykjustulýðræði til að “fela” það að nefndarmenn eru handvaldir af flokkunum. Það er væntanlega búið að greiða atkvæði um viðkomandi innan þeirra flokks, ef sá flokkur ástundar innra lýðræði.

Í þessu tilfelli er líklega besta leiðin að formgera hefðina og gera hana að reglunni. Láta tilnefningar stjórnmálaflokkana duga formlega, ekki bara óformlega eins og hefur verið. Ég veit enga betri leið til að virða hefðina og í raun er þetta góð leið til að búa til lög og reglur, finna fyrst út hvað virkar og formgera það svo.

Hættum að greiða atkvæði um eitthvað þar sem ekki má greiða atkvæði á móti því það er hreinlega ólýðræðisleg þverstæða.