Upplýst val í prófkjörum Pírata í boði framkvæmdaráðs

Það eru áhugaverðir tímar í stjórnmálum og það er okkar að nýta þetta tækifæri til að gera gagn, hreinsa út skítinn og byggja upp betra Ísland. Ég vona og tel að allir Píratar séu sammála um þetta.

Fyrsta formlega skrefið er framundan, velja fólk á lista Pírata til þingkosninga. Prófkjörin sjálf eru ekki flókin en að velja þann frambjóðenda sem endurspeglar sem mest þín viðhorf verður heldur erfiðara. Ástæðan er að við erum svo ný og nýorðin svo mörg að líklegt er að frambjóðendur verði mun fleiri en þeir sem komast að. Og það er frábært!

En upplýstar ákvarðanir eru eitt af grunnstefum Pírata og slíkar verða augljóslega ekki teknar án upplýsinga. Og það er til einföld leið til að tryggja að almennir Píratar geti borið sig saman við frambjóðendur.

Í kosningum til Stjórnlagarráðs var DV (pre-Bingi) með vef þar sem frambjóðendur gátu svarað nokkrum spurningum um sig og sín stefnumál og sama gátu kjósendur gert. Að því loknu gátum við séð hver frambjóðenda passaði best við okkur. Einfalt, fljótlegt og skýrt.

Auðvitað tekur fólk svo sínar ákvarðanir og tekur mismikið mark á þessu, ekkert að því. Þetta er auðvitað ekki fullkomið en miklu betra en einstakar vefsíður með upplýsingum um frambjóðendum sem verða svo margar að upplýsingarnar munu oft renna saman í hausnum á okkur.

Ég mun beita mér fyrir (hvort sem ég verð kjörinn eða ekki) að framkvæmdaráð tryggi öllum Pírötum möguleikann á að velja sér frambjóðendur á upplýstan hátt án þess að þurfa að eyða í það fullt af tíma sem fæst okkar hafa. Hvort það verður þessi aðferð eða önnur er ekki aðalmálið, ég er alltaf opinn fyrir betri lausnum en þeim sem ég hef séð áður, annað er bannað ef maður vill framfarir :)

 

P.S: Að lokum legg ég til að  ‘Formaður framkvæmdaráðs’ breytist í ‘Yfirþjónn Pírata’ til að undirstrika tilgang og markmið stöðunnar og að staðan róteri á milli allra í framkvæmdaráði.  Þessi staða á ekki að vera leið fyrir fólk til að koma sér áfram heldur fyrir fólk sem vill þjóna Pírötum.

3 Replies to “Upplýst val í prófkjörum Pírata í boði framkvæmdaráðs”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *