Skiptir máli hvaðan gott kemur?

_|

Skiptir máli hvaðan gott kemur?

January 13, 2016 Democracy Íslenskt 0

Innan Pírata og víðar er oft sagt að það skipti ekki máli hvaðan hugmyndir koma, þær eigi alltaf að skoða á eigin forsendum. Og það er alveg rétt, það væri bæði sorglegt og slæmt að henda út góðum hugmyndum bara af því að þær komi frá einhverjum sem þú fílar ekki. En það er líka önnur hlið á þessu sem því miður gleymist oft.

Tökum dæmi: Einhver einstaklingur eða hópur hefur ítrekað blekkt þig, logið að þér og stolið frá þér. Hann kemur með hugmynd sem hljómar vel, þú hleypur til og styður hugmyndina, færð aðra með þér í lið, setur peninga, vinnu og orku í málið. En svo kemur í ljós að í raun var hugmyndin Trójuhestur því hún var eingöngu rammi utan um svik, lygar og þjófnað frá þér og öðrum.

Þú hefur verið misnotaður sem nytsamur sakleysingi og ekki bara hefur þú verið blekktur heldur tókst þú líka þátt í að blekkja aðra, óafvitandi. En þú áttir að vita betur ef þetta er ekki í fyrsta skipti sem viðkomandi gerir þetta við þig. Sökin er vissulega hans en þú ert á ákveðinn hátt meðsekur fyrir blindni/heimsku/ofbjartsýni sakir. Sérstaklega ef þetta hefur gerst aftur og aftur og þú fellur alltaf í gryfjuna.

Þannig að já, verum opin fyrir öllum hugmyndum en gleymum því aldrei að í þessu þjóðfélaginu er því miður fólk í ráðandi stöðum, með gott aðgengi að fjölmiðlum sem það notar einmitt til að koma fram með góðar hugmyndir sem síðan reynast ekki svo góðar.

Fólk og hópar sem hafa ítrekað blekkt og logið eiga ekki annað skilið en hugmyndir þeirra fái mjög djúpa og góða greiningu þar sem allar mögulegar afleiðingar og hliðar eru skoðaðar með sérstaka áherslu á worst case scenario.

Það erfiðasta í þessu er líklega að langflest okkar eigum mjög erfitt með að setja okkur í spor siðblindra einstaklinga sem svífast einskis af því að við erum ekki þannig sjálf og eigum því mjög bágt með að trúa þannig hegðun upp á aðra.

Verum jákvæð og opin fyrir góðum hugmyndum en verum ekki heimsk og blind. Nytsamir sakleysingjar eru og hafa alltaf verið helsti efniviður siðblindingja til sinna skítverka.

 

P.S: Í þessu samhengi mæli ég með lestri á Animal Farm eftir George Orwell. Ef þú hefur lesið hana áður þá er upplagt að gera það aftur, aldrei of oft lesin.

P.P.S: Önnur hlið á þessu máli er síðan að með því að styðja fólk vegna hugmynda sem okkur líkar þá erum við stundum, beint eða óbeint að styðja aðrar hugmyndir þess líka. Þetta er flóknara atriði en ég vildi samt nefna það hér líka.

P.P.P.S: Ef þú kannast við ofanskráð dæmi á eigin skinni, t.d. í mynd ákveðinna lýðskrumandi stjórnmálaflokka þá er það ekkert skrítið…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.