Ég er pírati

Ég heiti Gunnar Grímsson og býð mig fram til framkvæmdaráðs Pírata.

Helstu stefnumál eru:

  • Ég vil greina, auka og bæta innra starf Pírata, bæði rafrænt og hefðbundið. M.a. með því að laga og skýra infrastrúktúr og setja upp ferla sem tryggja gagnsæi og hvetja til heiðarleika.
  • Ég vil auðvelda Pírötum að bera sig saman við frambjóðendur í prófkjörum.  Val á frambjóðendum þarf að byggja á upplýsingum en ekki andlitum.
  • Ég vil auka gagnsæi og aðkomu félagsmanna að störfum framkvæmdaráðs, ekki af því að þau hafi verið illa unnin eða leynileg heldur af því að það er eina góða leiðin til að hafa sem allra mesta sátt um vinnu framkvæmdaráðs.
  • Ég vil virkja fleiri almenna félagsmenn í þágu Pírata, hjálpa góðri grasrót til að nýtast betur því það leynist gríðarlega mikill vannýttur mannauður í fólki sem vill hjálpa en veit ekki hvernig og finnur ekki leiðina sjálft.
  • Ég vil nýta 20+ ára reynslu mína sem vefsmiður og viðmótshönnuður til að bæta framsetningu og aðgengi að gögnum á vefsvæði Pírata, gögn sem ekki er hægt að finna eru lítils virði.
  • Ég vil leita allra leiða til að auka kosningaþátttöku ungs fólks. Bæði af prinsippástæðum og praktískum.

Ég hef verið anarkisti frá 15 ára aldri, virkur mótmælandi síðan 17 ára og er meðstofnandi og framkvæmdastjóri non-profit sjálfseignarstofnunarinnar Íbúa ses (Citizens Foundation) sem hefur með vefsvæðunum Betri Reykjavík, Betra Íslandi og Your Priorities bætt og aukið lýðræði víðsvegar í heiminum. Búinn að vera á hliðarlínu Pírata síðan fyrir stofnun, hef unnið með og þekki marga sem hafa verið framarlega í baráttunni á síðustu árum og hef stutt við og unnið með Pírötum í starfi mínu fyrir Íbúa ses. Nú er komið að því að taka virkan þátt í starfinu, bæði rétti tíminn fyrir mig og Pírata ;) Ég geri mér grein fyrir og styð takmarkað vald framkvæmdaráðs en bein og óbein áhrif eru töluverð og því skiptir miklu hverjir þar eru við borð.

Þar sem anarkismi spannar ansi stórt róf er rétt að fara aðeins dýpra í hvað ég stend fyrir, þrátt fyrir að framkvæmdaráð sé ekki pólítískt fyrirbæri þá hefur það töluverð áhrif og ég vil allavega sjálfur vita hvað það fólk stendur fyrir sem ég mun kjósa í það. Ég er róttækur og vil breytingar og betra samfélag. En ég neita að láta spyrða mig við vinstri eða hægri, ég vel það úr stefnum sem mér líkar og tel líklegt til að hjálpa okkur að búa til betri heim. Að því sögðu þá er eflaust meira í mínum skoðanasarpi sem skilgreiningasinnar myndu segja að væri til vinstri heldur en hægri :)

Ég trúi því frá mínum innsta kjarna að við eigum öll skilyrðislausan rétt á að ákveða okkar eigin örlög og umhverfi og að enginn geti skipað okkur að gera hluti sem brjóta gegn sannfæringu okkar. Samfélag byggir hinsvegar á málamiðlunum því við erum afskaplega mismunandi en þar sem núverandi lýðræðiskerfi okkar urðu endanlega úrelt seint á síðustu öld þá eru þau hreinlega ófær um að takast á við þá heimsmynd sem við búum við í dag.

Aukið og betra lýðræði er í mínum huga lykilatriði til að við getum saman smíðað betra samfélag. Hluti af slíku eru augljóslega rafrænir lýðræðisferlar en þeir eru engin töfralausn sem lagar öll okkar vandamál! Við þurfum að blanda saman því besta úr hefðbundnu lýðræði við kosti rafræns lýðræðis, beins lýðræðis, samráðslýðræðis og hvað sem menn vilja kalla það. Í heiminum er ótrúleg gróska í lýðræðisþróun, sú langmesta í 200 ár eða svo og ég er stoltur af að hafa tekið virkan þátt í henni og gert hundruðum þúsunda manna kleift að bæta umhverfi sitt á einfaldan hátt.

Ég mun koma heiðarlega fram í öllum trúnaðarstörfum og hafa gagnsæi, upplýsingar og hlutlausa greiningu í fyrirrúmi. Ég er að íhuga að taka þátt í prófkjöri í Reykjavík suður, ef ég ákveð að taka það skref mun auðvitað segja mig frá öðrum störfum innan Pírata um leið og ákvörðun liggur fyrir. Fram að því (ef ég næ kjöri) mun ég passa mig mjög vel að gæta hlutleysis hvað varðar öll mál sem tengjast prófkjöri og þingkosningum og augljóslega segja mig frá öllum ákvörðunum í málum sem hugsanlega gætu tengst Íbúum ses og okkar vinnu.

Tónlist
Tónlist er mér gríðarlega mikilvæg, bæði sem hlustandi og flytjandi. Frá 15 ára aldri hef ég samið, spunnið og flutt allskonar tónlist, fyrst í hljómsveitinni Jói á hakanum, síðar meðstofnandi Spuna sem hélt fjölmörg spunakvöld víðsvegar um Reykjavík á síðustu öld. 1988-89 var ég í tónlistarnámi við Institute of Sonology í Den Haag og telst það vera eina nám utan skyldunnar sem ég hef klárað, enda erfitt að stinga af þegar John Cage er með 3ja vikna vinnustofu :)

Í dag er ég virkur í þremur hljómsveitum:

  • Innblástur! Arkestra sem er samfélagslega meðvituð hljómsveit sem er opin fyrir þátttöku allra, óháð tónlistarkunnáttu. Allir velkomnir!
  • Fengjastrútur er tónlistarhópur sem sérhæfir sig í flutningi á tónlist sem notar fyrirmæli, grafík og hreyfimyndir í stað hefðbundinna nótna. Flestir meðlima eru líka tónskáld og nýlega héldum við tónleika með frumfluttum íslenskum verkum í Mengi.
  • admmm sem er einstaklingsverkefni mitt í sjálfspilandi raftónlist þar sem ég og tækin leggjumst á eitt við sköpunina. Er á byrjunarstigi og það sem heyrist á Soundcloud er smjörþefurinn af því á hvaða leið við erum.

Fjölskylduhagir
Ég er giftur og á þrjú börn, sá elsti úr fyrra sambandi. Gæti auðvitað skrifað margt og mikið um hvað konan mín er falleg og frábær og börnin auðvitað þau bestu í heimi en hey, það kemur þessu framboði ekkert við :)

Hagsmunaskráning
Ég er meðstofnandi og framkvæmdastjóri Íbúa ses (Citizens Foundation) sem er non-profit sjálfseignastofnun sem hefur stuðlað að auknu og bættu lýðræði víða um heim síðan 2008, m.a. með hönnun, þróun og rekstri á vefsvæðunum Betri Reykjavík, Betra Íslandi og Your Priorities. Sit ekki í neinum stjórnum (ekki einu sinni húsfélags!) og á enga peninga á Tortóla né öðrum aflandseyjum :)

Meiri upplýsingar

Yfirlit yfir helstu verk Íbúa ses síðan 2008 – Á ensku

Ekki hika við að senda mér póst eða skilaboð á FB eða Twitter ef þú vilt vita meira, benda mér á eitthvað, ræða við mig eða skamma mig :) Ég samþykki allar vinabeiðnir á FB og gleðst við að kynnast fleira fólki sem vill hjálpa til við að búa til betra Ísland.

Stutt ferilskrá Ítarlegri en gömul og á ensku  – Mínar ferilsskrár snúast bara um upplýsingatækni, það er það eina sem ég hef þurft á að halda. Ef ég ætlaði að skrá öll störf sem ég hef unnið við þá væru það nokkrar blaðsíður, var yfirleitt í vinnum jafnlengi og ég lærði eitthvað á þeim á yngri árum.

Áður en ég fór að vinna við vefsmíðar þá hafði ég m.a. unnið sem járnsmiður, bóksali, bensíntittur, helluleggjari, klóakviðgerðamaður, múrhandlangari og húsamálari, verkstjóri yfir unglingum á atvinnuleysisbótum, bæjarstarfsmaður ofl. ofl. Tek þetta kannski saman í ellinni þegar minnið er orðið svo valkvæmt að þetta verður einn rennisléttur ferill af samhangandi djobbum. Eða ekki ;) En ég hef allavega mjög víðtæka reynslu af fjölbreyttum störfum og góðan skilning og samkennd með fólki sem vinnur störf sem flestum finnast fyrir neðan sína virðingu.

Og já, full disclosure, ég gekk í sjálfstæðisflokkinn (heimdall) þegar ég var 13 ára, með undirskrifuðu leyfi foreldra. Tók smá tíma að átta mig á því að ég var á vondum stað ;)

Ofanskráð er lengri útgáfa af textanum sem er á vef Pírata vegna framboðsins.

Gunnar Grímsson
270763-4999
gunnar@truth.is
8978229

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *